Ferill 249. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 505  —  249. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um evrópskt varnarsamstarf.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er afstaða þjóðaröryggisráðs til þess að Ísland tengist á einhvern hátt evrópsku varnarsamstarfi, svo sem European Intervention Initiative, samhliða aðild að NATO? Hefur ráðið kannað þennan möguleika sérstaklega?

    Með hliðsjón af efni fyrirspurnarinnar var haft samráð við þjóðaröryggisráð við vinnslu eftirfarandi svars.
    Samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð, nr. 98/2016, er ráðið samráðsvettvangur um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og þjóðaröryggismál. Ábyrgð á stjórnarframkvæmd einstakra stjórnarmálefna er varða þjóðaröryggi er því óbreytt hjá hlutaðeigandi ráðherra samkvæmt forsetaúrskurði hverju sinni.
    Á fundum ráðsins er fjallað um þau þjóðaröryggismál sem efst eru á baugi hverju sinni, framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar eða mál er kunna að hafa áhrif á stefnuna og framkvæmd hennar. Það er hins vegar ekki í samræmi við lögbundið hlutverk ráðsins sem samráðsvettvangs að álykta um afstöðu til stjórnarmálefna sem eru á ábyrgðarsviði tiltekins ráðherra, enda væri slíkt til þess fallið að grafa undan hlutverki þjóðaröryggisráðs sem sameiginlegs samráðsvettvangs um þjóðaröryggismál.
    Fyrirspurnin varðar samskipti og samstarf Íslands við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði öryggis- og varnarmála og er henni beint til forsætisráðherra en spurst er fyrir um afstöðu þjóðaröryggisráðs til málefnis sem er á ábyrgðarsviði utanríkisráðherra, sbr. k-lið 2. tölul. 10. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sbr. einnig 10. gr. forsetaúrskurðar nr. 120/2018 um skiptingu starfa ráðherra.
    Af framangreindu leiðir að þjóðaröryggisráð hefur ekki tekið afstöðu til þeirra atriða sem fyrirspurnin fjallar um. Óski fyrirspyrjandi eftir nánari upplýsingum um málefnið ber að beina fyrirspurn þar að lútandi til utanríkisráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.